Skip to Main Content
site header image

DOI númer: Hvað er DOI?

Hvað er DOI?

DOI stendur fyrir Digital Object Identifier. Það er notað til að auðkenna rannsóknargögn, s.s. tímaritsgreinar og önnur gögn sem gefin eru út á rafrænu formi á netinu, t.d. tímaritsgreinar, skýrslur, ráðstefnurit og gagnasett. Þessu mætti líkja við örmerkingar á köttum... og með því að auðkenna tímaritsgrein með DOI númeri er búið að tryggja varanlega slóð á netinu, jafnvel þó að upprunalega vefslóðin á greinina breytist. Þess má geta að Skemman, rafrænt varðveislusafn háskólanna á Íslandi, notar svipað kerfi svokallað „handle“ (handfang) til að auðkenna námsritgerðir og það virkar á sama hátt. 

DOI auðkennið er staðlað af Alþjóðlegu staðlastofnuninni – ISO (International Organization for Standardization). 

Af hverju skiptir DOI máli?

  • DOI númerin eru alþjóðleg. 
  • Númerin auðkenna hverja einstaka tímaritsgrein (eða önnur gögn) og greina þau frá öðrum gögnum.
  • Margir höfundar bera svipað nafn og margar greinar svipað heiti. DOI númerin auðvelda upplýsingaleit og finnanleika efnis.
  • Gögnin/greinarnar geta birst á mismunandi stöðum á líftíma sínum. 
  • DOI númer er hægt að nota á rannsóknargögninin sjálf en að auki á vefsíðu tímarits, í heimildaskrá, á pdf skjali í gagnasafni og jafnvel í OA varðveislusafni. 
  • DOI númer veitir beinan aðgang að efninu alveg óháð því hvar það er geymt eða margfaldað. 

DOI númer Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns

Útgefendur fræðitímarita á Íslandi geta sótt um DOI númer fyrir greinar í tímaritum sínum t.d. hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni (Lbs-Hbs). Úthlutun DOI númera er útgefendum að kostnaðarlausu.

DOI númer Lbs-Hbs hefjast alltaf á 10.33112. Á eftir því kemur skástrik “ / “ og svo titill/skammstöfun tímarits, tillaga að skammstöfun tímarits kemur frá tímaritinu. Vefslóð að DOI númeri byrjar oftast á https://doi.org/... og svo fylgja tölu- og bókstafirnir á eftir. 

Þegar tímaritsgrein hefur fengið sitt DOI númer, sést það oftast á fyrstu síðu, efst eða neðst.

Dæmi: DOI með vefslóð

 

Dæmi: DOI án vefslóðar