Skip to Main Content
site header image

Námsbókasafn: Fyrir kennara

Námsbókasafn er safn efnis sem kennarar við Háskóla Íslands hafa óskað eftir að sé aðgengilegt fyrir nemendur

Mikilvægar dagsetningar vormisseri 2023

Opnað fyrir beiðnir um afgreiðslu bókalista fyrir vormisseri 2023: 14. nóvember 2023.

Tölvupóstur sendur til að minna kennara á að skila inn bókalistum fyrir upphaf vormisseris: 12. desember 2022.

Til þess að tryggja að efni verði komið upp í hillur námsbókasafns á réttum tíma þarf að skila inn bókalista í síðasta lagi 7 dögum fyrir upphaf kennslu. 

Vinsamlegast athugið að bókalistar eru afgreiddir í þeirri röð sem þeir berast. 

Þjónusta fyrir kennara

Öllum kennurum Háskóla Íslands er velkomið að nýta sér námsbókasafnið. Þjónustan er í boði fyrir alla kennara skólans sem vilja hafa efni aðgengilegt fyrir nemendur sína. Námsbókasafnið er safn bóka, mynddiska og annars efnis sem hægt er að óska eftir að sé aðgengilegt nemendum í tilteknum námskeiðum. 

Námsbókasafn fyrir nemendur Háskóla Íslands 

Námsbókasafnið er að finna á 4. hæð Þjóðarbókhlöðu. Efni sem er á náms-bókasafninu er eingöngu ætlað þeim sem stunda nám við Háskóla Íslands. Bækurnar eru aðgengilegar í hillum sem eru sérstaklega merktar hverju námskeiði fyrir sig, þannig að nemendur ganga að þeim vísum og afgreiða sig sjálfir. 

Frátekt á efni

Ekki er hægt að taka frá efni í námsbókasafni. Hægt er að framlengja lánstíma efnis fyrir nemanda en þá þarf skriflegt leyfi frá kennara að liggja fyrir. Það er gert með því að senda tölvupóst á námsbókasafn. Athugið að það þarf að koma fram nafn nemanda, heiti námskeiðs sem um ræðir og lengd lánstíma.

Sendu bókalistann beint til okkar

Til þess að tryggja að námsefnið verði komið í hillu við upphaf misseris þarf námsbókasafninu að berast beiðnir um afgreiðslu bókalista í allra síðasta lagi 7. dögum fyrir upphaf kennslu.

Með beiðninni þarf að fylgja:

  • Óskir um lánstíma
  • Nafn og númer námskeiðs
  • Nafn umsjónakennara námskeiðsins

Sendu inn bókalistann þinn hér:

Tölvupóstur til kennara

Tölvupóstur er sendur út til allra kennara Háskóla Íslands þegar opnað er fyrir móttöku beiðna. Mikilvægt er að allar beiðnir um afgreiðslu bókalista og aðrar óskir berist tímanlega til þess að tryggja að efnið sé komið upp í merkta hillu á réttum tíma. Gott er að hafa í huga að það getur tekið starfsfólk námsbókasafns mismunandi langan tíma að afgreiða beiðnir þar sem bókalistar geta verið misstórir. Þeim mun fyrr sem námskeiðalistarnir berast, því betra. Ef um séróskir er að ræða eða ef óskað er eftir breytingum á innsendum beiðnum, má alltaf hafa samband í síma 525 5781 eða senda póst á namsbokasafn@landsbokasafn.is 

Vinsamlegast athugið að nú er hægt að senda bókalista fyrir haustmisserið að vori til. Það tryggir að allt námsefni verður aðgengilegt nemendum við upphaf haustmisseris. ​

Pöntun á nýju efni

Ef námsbók er ekki til hjá Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni og ekki hægt að fá hana í millisafnaláni þá er hægt að óska eftir því að hún verði keypt inn. Mikilvægt er að pantanir séu gerðar í samráði við viðkomandi deild. Einnig er öllum velkomið að senda inn tillögur til ritkaupadeildarinnar. Það má að sjálfsögðu alltaf hafa samband við okkur á námsbókasafninu ef spurningar vakna og við aðstoðum með ánægju. 

Mikilvægt er að senda inn pöntunarlista til okkar sem allra fyrst svo líkurnar aukist á því að efnið berist í tæka tíð. Venjulega tekur pöntun nýrra bóka 2-3 vikur en gera má ráð fyrir allt að tveggja mánaða bið ef um eldra efni er að ræða. 

Eigið efni kennara

Kennurum er velkomið að koma með efni úr einkasafni og hafa til notkunar á staðnum í tengslum við námskeiðin sín. Kennarar eru jafnframt hvattir til þess að sækja efnið sitt eftir lok misseris. Einnig er hægt að óska eftir því að bókasafnið sendi efnið til baka í viðkomandi deild.

Lánstími námsbóka

Þegar beiðni er send á námsbókasafnið, er lánstímann á efninu valinn. Hægt er að sjá valmöguleika á lánstíma hér að neðan. Athugið að mynddiska er aldrei hægt að lána út lengur en 3 daga í senn.

Rauður miði: Notkun á staðnum

Bleikur miði: Dægurlán

Blár miði: 3ja daga lán

Gulur miði: 7 daga lán

Grænn miði: 2ja vikna lán