Skip to Main Content
site header image

ORCID auðkenni: Hvað er ORCID?

Hvað er ORCID?

ORCID stendur fyrir Open Researcher and Contributor ID og greinir þig frá öðrum rannsakendum alla starfsævi þína. Orcid er ókeypis, einstakt og viðvarandi auðkenni fyrir vísindamenn/rannsakendur til að nota í rannsóknum, fræðimennsku og nýsköpun og þegar sótt er um styrki. Á þennan hátt er hægt að tengja saman alla sem sinna ofangreindum þáttum  og auðkenna allt þeirra framlag, þvert á fræðigreinar, landamæri og tíma.

ORCID eða ORCID ID er 16 stafa númer og reikningurinn þinn sem tengist númerinu (stundum talað um „ profile“) geymir alla sjálfvirka tengla á rannsóknaafurðir þínar og tengir þannig allt þitt rannsóknastarf við þig. Með því að leyfa traustum samtökum/stofnunum að bæta upplýsingum um rannsóknir þínar við ORCID reikninginn þinn, verður öll umsjón einfaldari fyrir þig. 

Af hverju skiptir ORCID máli?

Það skiptir miklu máli að verk séu rétt merkt höfundum þegar t.d. margir bera sama nafn. Hvernig eigum við að auðkenna Guðrúnu Jónsdóttur verkfræðing frá Guðrúnu Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi?

Í ORCID er jafnframt hægt að skrá mismunandi rithætti nafna og tryggja þannig að verk Unnar Önnu Valdimarsdóttur birtist sem hennar höfundarverk hvort sem verkið er merkt henni sem Unnur Anna Valdimarsdóttir, Unnur Valdimarsdottir, U.A. Valdimarsdóttir, U.A. Valdimarsdottir, U. Valdimarsdottir o.s.frv.

  • Með því að nota ORCID, er hægt að komast hjá því að fá tölvupósta sem ættu að fara annað og forðast að rannsóknarafurðin þín sé ranglega skráð á annan höfund þegar um er að ræða gagnasöfn sem hafa sjálfvirka tilvísanaskráningu s.s. Scopus, Web of Science o.fl.

Þegar ORCID reikningur er búinn til gerist tvennt:

  • Til verður skráning yfir allar rannsóknir viðkomandi sem eru aðgengilegar í öðrum kerfum í gegnum ORCID skrásetninguna.
  • Til verður yfirlitssíða (e. profile page) viðkomandi sem er aðgengileg á tiltekinni vefslóð.

Myndband: Hvað er ORCID?