Skip to Main Content

Fyrir rannsakendur: Tímarit fyrir greinina þína

Gagnlegir tenglar

Samningur við Karger

Samkvæmt samningi við Karger útgáfuna geta rannsakendur á Íslandi nú birt vísindagreinar í Karger í opnum aðgangi án þess að greiða birtingargjöld og er fjöldi greina til birtingar ótakmarkaður.

Atriði sem hafa þarf í huga við val á tímariti

Vanda þarf valið þegar birta á fræðigrein. Hér verður farið yfir  nokkur atriði sem gæti verið gagnlegt að hafa í huga við val á tímariti og útgefanda. 

1. Aðgangur 

Miklu máli skiptir hvernig aðgangi að útgefinni grein muni verða háttað. Sumir útgefendur setja skorður eins og birtingartafir, greiðsluveggi, áskriftargjöld, og fleiri íþyngjandi skilmála sem geta komið í veg fyrir að Háskóli Íslands, nemendur og kennarar hafi aðgang að því fræðiefni sem þó er unnið í háskólanum. Höfundarréttarmál þurfa að vera á hreinu. Kanna þarf hvort nýta megi eigin greinar við kennslu og hvort leyfi sé til að vista þær inni á kennsluvefjum námskeiða eða inni í Opnum vísindum - varðveislusafni háskólanna. Ekki er hægt að ganga að því sem gefnu að háskólinn kaupi aðgang að öllum þeim tímaritum sem birta greinar eftir fræðimenn skólans.

Í samræmi við stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang hvetjum við ykkur til að skoða hvort tímarit í opnum aðgangi geti verið hentugur vettvangur til útgáfu. Í gagnasafninu DOAJ.org eru skráð viðurkennd ritrýnd tímarit í opnum aðgangi.

Á vefnum Sherpa Romeo má finna upplýsingar um útgáfustefnu einstakra útgefenda varðandi opinn aðgang og höfundarrétt. Þar má sjá hvort útgefandi samþykki að greinar, eða handrit þeirra, séu vistuð á heimasíðu höfundar og/eða í varðveislusafni háskóla. Einnig hvort útgefandi býður upp á þann möguleika að greiða APC þjónustugjald fyrir opinn aðgang að greinum sem annars væru gefnar út í hefðbundnum áskriftartímaritum.  

Ef áhugavert tímarit leyfir ekki birtingu í opnum aðgangi er mikilvægt að kanna hvort háskólinn hafi aðgang að ritinu eða ekki. Það má sjá með því að fletta því upp á leitir.is eða undir Finna tímarit.

2. Orðstír og aflstig 

Við val á tímariti til birtingar fræðigreinar er mikilvægt að kanna orðstír til að komast hjá því að birta grein í rányrkjutímaritum (e. predatory), ritum sem hafa á sér vafasamt orð eða þykja allt að því marklaus í fræðiheiminum. Fyrsta og sennilega einfaldasta leiðin til að ganga úr skugga um ágæti tímarita og útgefenda er að kanna reynslu annarra fræðimanna á ykkar sviði. Þannig má einnig fá upplýsingar um rit og útgefendur sem hafa áður birt verk eftir fræðimenn háskólans. 

Fræðirit eru mismikils metin til stiga fyrir framgang í starfi. Það skiptir því máli að kynna sér matskerfið vel. Á vef vísinda- og nýsköpunarsviðs eru upplýsingar um matskerfi opinberra háskóla. Í Matskerfi opinberu háskólanna er því lýst hvernig tímaritsgreinar skiptast í fjóra flokka eftir því hvar þær birtast. Efsti flokkurinn gefur 20 stig, næsti 15, svo 10 og að lokum er neðsti flokkurinn sem gefur 0-5 stig. 
Greinum í íslenskum tímaritum er raðað í flokka í samræmi við alþjóðleg viðmið um gæði tímarita sem skýrð eru í viðauka I í Matskerfi opinberu háskólanna. 

Greinar í rányrkutímaritum (e. predatory) eru ekki metnar til stiga. 

Á vef Clarivate InCites Journal Citation Report má finna áhrifastuðul, ýmist með því að fletta upp á ákveðnu tímariti eða skoða öll rit í ákveðnum efnisflokki, t.d. menntun, sérkennslu, raungreinakennslu, líffræði, íþróttum, læknisfræði ofl. Hafa skal í huga að tiltekið tímarit getur haft misháan áhrifastuðul eftir efnisflokkum. Rit sem er metið lágt í læknisfræði gæti, svo dæmi sé tekið, verið metið hærra í heilsufræði. Því er mikilvægt að gæta þess að miða við réttan efnisflokk. Í sumum tilfellum fellur enginn efnisflokkur vel að sérgrein tímarits. Þannig er til dæmis enginn flokkur innan menntunarfræðanna hjá Clarivate sem á við kennslu listgreina eða iðnmennta þó sérstakir flokkar séu til fyrir raungreinakennslu og sérkennslu. 

Þess má geta að finna má tímarit í opnum aðgangi ofarlega á listum hjá bæði Clarivate og Scopus. Auk þess hafa vinsældir þeirra aukist með árunum og tilvísanir í greinar þar með einnig. Áhrif tímarita í opnum aðgangi aukast því hægt og rólega. Matskvarðar tímarita byggja á upplýsingum þriggja síðustu ára svo breytingar á áhrifastuðlum verða óneitanlega nokkuð hægar, en þó einhverjar á milli ára. Full ástæða er því til að skoða vandlega möguleika á birtingu í opnum aðgangi. 

3. Áhrif styrkja á val tímarits

Hafa þarf í huga að styrkveitendur setja oft sem skilyrði að rannsóknarniðurstöður birtist í opnum aðgangi. Má þar nefna Plan S hjá COAlition-S. Mögulegt er að fletta upp tímaritum til að sjá hvort birting í þeim standist kröfur Plan S, styrkveitenda og háskólans, sjá hér

Þá er oft veitt vilyrði fyrir því að hluti styrksins sé nýttur til að greiða fyrir birtingu í opnum aðgangi (sjá stefnur útgefenda um Golden open access).

4. Kostnaður höfunda (APC Article Processing Charge) 

Það er algengt að höfundar þurfi að greiða birtingargjöld (APC Article Processing Charge) fyrir útgáfu fræðigreina. Þetta gjald getur verið hátt og því er mikilvægt að kynna sér birtingarkostnað áður en tímarit er valið til útgáfu. Háskóli Íslands greiðir ekki APC-gjöld fyrir fræðimenn, en heimilar þó að höfundar notist við hluta af rannsóknarstyrkjum sínum til að greiða þessi gjöld. Árið 2020 var gerður samningur við útgefandann Karger um að ekki þurfi að greiða APC-gjöld hjá þeim fyrir birtingar í opnum aðgangi og stefnt er að því að gera fleiri slíka samninga í framtíðinni. Karger gefur út tímarit á sviði heilbrigðisvísinda.

Hugmyndin að baki APC er sú að höfundur greiði allan þann kostnað sem útgáfa greinar felur í sér, þar með talið  uppsetningu hennar og vinnu við próförk. Þar sem ritrýnar fá ekki greitt fyrir vinnu sína, er sá kostnaður ekki inni í verðinu. Ef sóst er eftir því að grein birtist í opnum aðgangi hjá tímariti sem bíður upp á "golden open access" hækkar upphæðin. Stærsti hluti APC kostnaðar við greinar sem birta skal í opnum aðgangi er ekki vegna kostnaðar við útgáfu, heldur áætlaðs taps á þeim hagnaði sem hefði komið til ef greinin væri bak við greiðsluvegg. Sú upphæð getur verið mjög mismunandi eftir tímaritum og útgefendum, allt frá tugum og upp í mörg hundruð þúsund krónur. Því þarf að skoða vel væntanlegan kostnað áður en lengra er haldið. 

Á DOAJ.org er mögulegt að leita sérstaklega að fræðiritum sem rukka höfunda ekki um APC gjöld. Þá getur borgað sig að skoða þau fræðirit sem ýmsir háskólar gefa út, því þar er yfirleitt ekki óskað greiðslu frá höfundi. Við mælum með því að skoða vel þau tímarit sem birta greinar án kostnaðar fyrir höfundinn.  

5. Stefna Háskóla Íslands um opinn aðgang

Háskóli Íslands hefur stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og lokaverkefnum. Þar er starfsfólk hvatt til að birta vísindagreinar á vettvangi sem styður opinn aðgang.