Rannsóknargagnasafnið ÍRIS (e. PURE)
Í júlí 2019 var undirritaður samningur um kaup á upplýsingakerfi fyrir rannsóknir á Íslandi (Current Research Information System – CRIS). Kerfið sem var valið heitir Pure frá fyrirtækinu Elsevier og er notað víða um heim. Innleiðing á kerfinu í alla háskóla og helstu rannsóknastofnanir hér á landi hófst í lok árs 2019, en Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni að fara fyrir verkefnisstjórn innleiðingar, annast utanumhald vegna samningsins og gegna miðlægu þjónustu- og samræmingarhlutverki vegna reksturs kerfisins. Stefnt er að því að opna kerfið snemma á árinu 2022.
Opinn aðgangur (OA) að vísindaefni verður æ mikilvægari og margir styrkveitendur fara fram á að styrkþegar geri niðurstöður rannsókna sinna aðgengilegar öllum. Kröfur rannsóknarsjóða um OA má finna í gagnasafninu SHERPA Juliet
Í gagnasafninu SHERPA RoMEO má svo kynna sér þær reglur sem útgefendur hafa sett um vistun tímaritsgreina í varðveislusöfnum s.s. um birtingartöf og hvaða útgáfu handrits höfundum er heimilt að vista.
Háskóli Íslands mælist til þess að starfsfólk noti ORCID auðkenni og slíkt auðkenni er nauðsynlegt til að skrá verk í varðveislusafnið Opin vísindi.