Skip to Main Content
site header image

Rannsóknarþjónusta og opinn aðgangur: Að velja tímarit

Fróðleikur og hagnýtar upplýsingar

Val á tímaritum

Atriði sem hafa ber í huga við val á útgefanda og tímariti

  • Tímarit á einstökum fræðasviðum og hvernig ber að forðast rányrkjutímarit (e. predatory journals)

Til að finna tímarit á nýju fræðasviði eða nýja valkosti er gott að leita í gagnasöfnunum Scopus og Web of Science að greinum á viðkomandi fræðasviði. Journal Citation Reports í Web of Science er mjög gagnlegt að nota við val á tímariti en þar er m.a. hægt að slá inn einstökum titlum og fá heildstæðar upplýsingar um þá.

Með tilkomu internetsins hafa orðið til svokölluð rányrkju- eða gervitímarit. Vefurinn Think-Check-Submit (Hugsaðu, kannaðu, sendu inn) auðveldar rannsakendum að meta áreiðanleika tímarita. Þetta er einfaldur gátlisti sem hægt er að fara í gegnum áður en óskað er eftir því að fá grein birta. Varðandi tímarit í opnum aðgangi þá er það ákveðinn gæðastimpill ef tímaritið er skráð í Directory of Open Access Journals (DOAJ) eða ef útgefandinn er meðlimur í Open Acess Scholarly Publishing Association (OASPA). Sjá einnig Predatory publishers: how to determine validity og um rányrkjutímarit á vefnum Opinn aðgangur.

  • Upplýsingar um áhrifastuðla einstakra tímarita

Journal Citation Reports
Clarivate (áður ISI) "Journal Impact Factor"

Scimago Journal Rank (SJR) -
Áhrifastuðlar tímarita hjá Elsevier

Kostnaður höfunda (APC article Processing Charge)

Það er algengt að höfundar þurfi að greiða birtingargjöld (APC Article Processing Charge) fyrir útgáfu fræðigreina. Þetta gjald getur verið hátt og því er mikilvægt að kynna sér birtingarkostnað áður en tímarit er valið til útgáfu. Háskóli Íslands greiðir ekki APC-gjöld fyrir fræðimenn, en heimilar þó að höfundar notist við hluta af rannsóknarstyrkjum sínum til að greiða þessi gjöld.

Hugmyndin að baki APC er sú að höfundur greiði allan þann kostnað sem útgáfa greinar felur í sér, þar með talið  uppsetningu hennar og vinnu við próförk. Ef sóst er eftir því að grein birtist í opnum aðgangi hjá tímariti sem bíður upp á "golden open access" hækkar upphæðin. Sú upphæð getur verið mjög mismunandi eftir tímaritum og útgefendum, allt frá tugum og upp í mörg hundruð þúsund krónur. Því þarf að skoða vel væntanlegan kostnað áður en lengra er haldið. 

Á DOAJ.org er mögulegt að finna upplýsingar um APC gjöld útgefenda og jafnvel leita sérstaklega að fræðiritum sem rukka höfunda ekki um APC gjöld.  

Höfum við aðgang að greininni?

Sumir útgefendur setja skorður eins og birtingartafir, greiðsluveggi, áskriftargjöld, og fleiri íþyngjandi skilmála sem geta komið í veg fyrir að Háskóli Íslands, nemendur og kennarar hafi aðgang að því fræðiefni sem þó er unnið í háskólanum. Höfundarréttarmál þurfa að vera á hreinu. Kanna þarf hvort nýta megi eigin greinar við kennslu og hvort leyfi sé til að vista þær inni á kennsluvefjum námskeiða eða inni í Opnum vísindum - varðveislusafni háskólanna. Ekki er hægt að ganga að því sem gefnu að háskólinn og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn kaupi aðgang að öllum þeim tímaritum sem birta greinar eftir fræðimenn skólans.

Í samræmi við stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang hvetjum við ykkur til að skoða hvort tímarit í opnum aðgangi geti verið hentugur vettvangur til útgáfu. Í gagnasafninu DOAJ.org eru skráð viðurkennd ritrýnd tímarit í opnum aðgangi.

Á vefnum Sherpa Romeo má finna upplýsingar um útgáfustefnu einstakra útgefenda varðandi opinn aðgang og höfundarrétt. Þar má sjá hvort útgefandi samþykki að greinar, eða handrit þeirra, séu vistuð á heimasíðu höfundar og/eða í varðveislusafni háskóla. Einnig hvort útgefandi býður upp á þann möguleika að greiða APC þjónustugjald fyrir opinn aðgang að greinum sem annars væru gefnar út í hefðbundnum áskriftartímaritum.  

Ef áhugavert tímarit leyfir ekki birtingu í opnum aðgangi er mikilvægt að kanna hvort háskólinn hafi aðgang að ritinu eða ekki. Það má sjá með því að fletta því upp á lbs.leitir.is eða undir Leita að tímariti.

Samningur við Karger

Samkvæmt samningi við Karger útgáfuna geta rannsakendur á Íslandi nú birt vísindagreinar í Karger í opnum aðgangi án þess að greiða birtingargjöld og er fjöldi greina til birtingar ótakmarkaður.

Samningur við Sage

Sage

Í gildi er samningur um opinn aðgang (e. transformative agreement) að tímaritum útgáfufyrirtækisins Sage sem gefur út tímarit á sviði félags-, hug-, heilbrigðis- og lífvísinda.

Samningurinn felur í sér að íslenskir vísindamenn sem tengjast íslenskri stofnun og vilja birta greinar í sk. blönduðum  tímaritum (e. hybrid journals) Sage, þurfa ekki að greiða birtingagjöld. Ef grein birtist í opnum aðgangi samkvæmt Gylltu leiðinni (e. Gold Open Access) þá er hægt að fá 20% afslátt af birtingagjöldum (eða hærri afslátt sé hann í boði).