Hér er farið yfir helstu þætti sem við koma heimildarýni almennt; skilgreiningar, markmið, ferli og gagnleg verkfæri.
Bókasafnið getur veitt aðstoð við hvernig á að skipuleggja leit, finna leitarorð, útbúa leitarstrengi og velja viðeigandi gagnasöfn. Bókasafnið leiðbeinir um heimildastjórnunarforrit eins og EndNote og önnur hjálpartæki sem geta komið að gagni, eins og gervigreindartól.
Heimildarýni er kerfisbundin samantekt og greining á fræðilegum heimildum sem tengjast ákveðnu rannsóknarefni. Heimildarýni er ætlað að svara/sýna hvaða rannsóknir hafa verið gerðar um ákveðið efni, hverjir eru helstu rannsakendur, hverjar eru helstu hugmyndir og aðferðir, hvort skoðanir eru skiptar og hvar eru gloppur (gaps) sem benda til hvað ástæða sé til að skoða nánar.
Heimildarýni er gagnrýnin umfjöllun sem setur rannsókn í fræðilegt samhengi og getur hjálpað til við að móta rannsóknarspurningar.
Það er fjöldi mismunandi aðferða við heimildarýni. Algengastar eru:
Hefðbundið yfirlit (Narrative review) sem er almenn og sveigjanleg og hentar til að fá yfirsýn, rekja þróun hugmynda og setja viðfangsefnið í fræðilegt samhengi. Hún hentar þegar rannsóknarspurningin er opin og víð en niðurstöður geta tekið mið af sjónarhorni og mati höfundar. Birting niðurstaðna getur verið frásagnarkennd samantekt og án kerfisbundinnar aðferðar. Algengt í hugvísindum og félagsvísindum.
Kerfisbundin rýni (Systematic review) er nákvæm og gagnrýnin greining á afmörkuðu sviði. Allar viðeigandi rannsóknir eru leitaðar uppi samkvæmt ströngu og fyrirfram skilgreindu ferli. Niðurstöður eru samþættar og leitast við að lágmarka hlutdrægni. Kerfisbundin rýni getur verið mjög tímafrek, allt frá vikum upp í marga mánuði. Þekking á viðfangsefni þarf að vera fyrir hendi og rannsóknarspurning vel afmörkuð. Birting niðurstaðna er skipulögð, oft með töflum og flæðiritum. Algengt í heilbrigðisvísindum.
Skimun (Scoping review) kortleggur umfang, eðli og einkenni rannsókna á tilteknu sviði. Sýnir hvað hefur verið rannsakað og hvar eru gloppur. Leitin getur verið ítarleg og fyrsta skrefið í átt að krefisbundinni rýni, en minni áhersla er lögð á gagnrýna úttekt á gæðum heimilda. Hentar einkum þegar verið er að skoða vítt, óljóst eða lítt rannsakað viðfangsefni til að ná yfirsýn og undirbúa frekari rannsóknir. Birting niðurstaðna getur verið skipulögð, með kortlagningu á þemum, hugtökum og gloppum um viðfangsefnið.
Samanburður byggður á töflu Grants og Booths:
Tegund | Hefðbundið yfirlit (Narrative review) | Kerfisbundin rýni (Systematic review) | Skimun (Scoping review) |
Lýsing | Almennt. Safnað útgefnu efni sem veitir yfirsýn yfir nýjar eða nýlegar heimildir. Getur náð yfir vítt efnissvið og mis ítarlegt. Getur innihaldið rannsóknarniðurstöður. | Kerfisbundin leit, mat og samantekt, oft samkvæmt tilteknum viðmiðum um framkvæmd slíkra greininga | Markmið að greina eðli og umfang rannsókna á tilteknu sviði og frumathugun á mögulegum tiltækum heimildum. |
Leit | Getur hvor heldur innihaldið ítarlega leit eða ekki | Ítarleg og yfirgripsmikil leit | Leitarferli takmarkast af tíma eða umfangi. Getur innihaldið rannsóknir í vinnslu |
Mat | Getur hvort heldur innihaldið gæðamat eða ekki | Gæðamat getur ráðið hvort gögn séu tekin með eða ekki | Ekkert formleg gæðamat |
Samantekt | Yfirleitt frásagnarkennd | Yfirleitt frásagnarkennd með töflum | Yfirleitt töflur ásamt útskýringum |
Greining | Greining getur verið í tímaröð, bundin hugtökum eða þemum o.s.frv. | Hvað er vitað, hvað er óvíst, hvar er óvissa um niðurstöður og tillögur um frekari rannsóknir | Greinir magn og gæði heimilda, t.d. eftir rannsóknarsniði og öðrum lykilatriðum. Leitast við að skilgreina raunhæfa yfirlitsgreiningu |
Grant, M. J., & Booth, A. (2009). A typology of reviews: An analysis of 14 review types and associated methologies. Health Information and Libraries Journal, 26(2), 91–108. https://doi.org/10.1111/j.1471-1842.2009.00848.x
Áður en heimildleit hefst, þarf að skilgreina viðfangsefni, rannsóknarspurningu og markmið rannsóknar. Án skýrrar rannsóknarspurningar og markmiðs verður erfitt að afmarka leit og meta hvað á að velja. Rannsóknarspurningin er grundvöllurinn að öllu ferlinu.
Síðan þarf að þróa leitaraðferð, skilgreina leitarorð, lykilorð, leitaraðferðir og útbúa leitarstrengi (Boolean). Setja þarf skýr viðmið um hvers konar heimildir verða teknar með og hvernig á að takmarka leit.
Velja þarf viðeigandi gagnasöfn sem má finna eftir efnissviði í Leiðarvísum safnsins og bókasafnsskráin Leitir.is veitir upplýsingar um aðgengilegt efni sem safnið útvegar, bæði rafrænt og hefðbundið á prenti.
Mikilvægt að leggja áherslu á traustar og oftast nýlegar heimildir. Velja þarf heimildir frá traustum aðilum og virtum útgefendum, ritrýndar fræðigreinar og opinberar skýrslur. Skoða þarf áhrif (impact), aldur og heimildaskrá. Forðast ber óstaðfestar vefsíður, blogg eða óformlegar heimildir nema þær séu studdar traustum gögnum. Kanna þarf hversu vel heimildir tengjast rannsóknarspurningunni með því að lesa útdrátt og niðurstöður.
Mikilvægt er að safna heimildum í heimildastjórnunarkerfi strax frá upphafi. Yfirleitt má á einfaldan hátt, hlaða heimildum þangað niður úr gagnasöfnum. Heimildaskráningarkerfi má einnig nota til að fara yfir tvítök áður en lengra er haldið.
Nota má samanburðartöflur (Synthesis matrix) til að greina, flokka og samþætta þær heimildir sem finnast. Þar eru skráðar í stuttu máli; helstu þemu, kenningar, aðferðir, tímabil, niðurstöður og rannsóknargloppur. Út frá því er kortlagt yfirlit yfir helstu niðurstöður og ályktanir, hvernig rannsóknir hafa þróast, aðferðafræði og hvers konar gögn hafa verið notuð.
Háskóli Íslands kaupir aðgang að EndNote og bókasafnið býður upp á kynningar og leiðbeiningar um notkun. EndNote er öflugt kerfi sem hentar fyrir stór heimildasöfn. Zotero og Mendeley eru ókeypis kerfi sem einnig hægt er að nota.
Excel og Word má nota til að útbúa samanburðartöflur (Synthesis Matrix) til að samþætta efni og draga saman niðurstöður, greina mynstur, samræmi, gloppur og ágreining milli heimilda. Heimildir (höfundur/útgáfuár) eru á öðrum ásnum, lykilatriði á hinum.
Höfundur (útgáfuár) | Rannsóknaraðferðir | Helstu niðurstöður | Takmarkanir |
NN (2020) | Eigindleg rannsókn | Aukin ánægja með lestrarkennslu | Lítið úrtak |
NN (2023) | Megindleg spurningakönnun | Engin marktæk áhrif | Einungis grunnskólanemar |
NN (2018) | Bæði eigindleg og megindleg | Jákvæð áhrif til langs tíma | Skortur á eftirfylgni |
NN (2024) | Yfirlitsgrein | Mismunandi niðurstöður eftir aldri | Gagnasöfnun takmörkuð við Ísland |
Dæmi um samanburðartöflu
Nota má almenna gervigreind til að útbúa leitarstrengi (Boolean), t.d. Copilot og Perplexity. Athugið þó að leitarstrengurinn verður ekki endilega eins hjá báðum svo það þarf að aðlaga niðurstöðurnar. Leitarstrengurinn er síðan notaður við leit í almennum gagnasöfnum. Í sumum tilfellum er hægt að biðja gervigreindina að útbúa leitarstreng sem á við tiltekin gagnasöfn.
PRISMA2020 (Preferred Reporting Items for Systematic reviews and Meta-Analysis) eru viðurkenndar leiðbeiningar til að setja fram kerfisbundna rýni og greiningu (Meta-Analysis). Þar er að finna gátlista og flæðirit.
Ýmis gangasöfn greina tilvísanir svo sem Web of Science, Scopus og Google Scholar Metrics en einnig sérhæfðar gervigreindir. Verkfæri fyrir tilvísanagreiningar (Citation analysis), mæla og greina tilvitnanir, meta áhrif (impact) og útbreiðslu, og samhengi rannsókna innan fræðasviðs. Þessi verkfæri hjálpa til við að finna mikilvægustu og áhrifamestu rannsóknirnar, kanna hvort tiltekin grein sé studd eða gagnrýnd af öðrum rannsóknum og greina tengsl milli fræðigreina og þróun hugmynda.
Dæmi um gervigreindartól fyrir tilvísanagreiningar eru:
Verkfæri fyrir kerfisbundna rýni auðvelda skimun (screening) á heimildum, gagnasöfnun, gæðamat, samantekt og úrvinnslu gagna.
Nokkur dæmi eru:
Ef unnið er með stór gagnasöfn og nýta á gervigreind til að hraða skjágreiningu, þá gæti ASReview verið góður kostur. Ef nota á flókna eigindlega greiningu, þá er EPPI-Reviewer trúlega best. Fyrir einfaldari og straumlínulagaða rýni henta Covidence og Rayyan vel.
Tilvísanagreining (Citation Analysis) | Kerfisbundin rýni (Systematic Review Tool) | |
Tilgangur | Greina hversu oft vitnað er í grein eða höfund. Notað til að meta áhrif og dreifingu | Skipuleggja og greina leitir, skimun og gagnasöfnun |
Áhersla | Í upphafi leitarferils | Eftir heimildaleit |
Notkun | Hvaða greinar er mest vitnað í og hvaða höfundar hafa mest áhrif | Að styðja við öll skref kerfisbundinnar samantektar; leit, gagnasöfnun, mat, úrvinnslu og birtingu niðurstaðna |
Verkfæri/tól | Web of Science, Scopus, Semantic Scolar, Consensus, Elicit, Cite … | Rayyan, EPPI Reviewer, Covidence, ASReview … |
Aðgerðir | Telja og greina tilvitnanir, og meta þannig áhrif | Skimun á titlum, útdráttum, heildartextum, gagnasöfnun, mat á hlutdrægni, samantekt gagna og birtingu niðurstaðna |
Tegund greiningar | Magnbundin (fjöldi tilvísana) | Eigindleg og megindleg greining |
Niðurstöður | Yfirlit yfir tilvitnanir, áhrifastuðla og tengsl milli verka og höfunda | Yfirlit yfir allar rannsóknir sem uppfylla fyrirfram skilgreind viðmið og samantekt á niðurstöðum og gæðum rannsókna |
Samanburður á tilvísanagreiningu og kerfisbundinni rýni
Við notkun gervigreindar er vert að hafa ákveðin atriði í huga.
Gervigreindartól hraða leit, flokkun og gera útdrætti. Þau draga úr síendurteknum handvirkum verkefnum og geta hjálpað til við að finna nýjar rannsóknir og tengsl milli rannsókna.
Gervigreindartól eru ekki fullkomlega áreiðanleg. þau geta misst af mikilvægum heimildum, farið út fyrir efnið eða niðurstöður verið háðar aðgangi að gögnum. Enn þarf því mannlega yfirferð til að tryggja dýpt, gæði og gagnrýna greiningu.
Bestur árangur fæst með því að nota gervigreindartól sem viðbót við hefðbundnar aðferðir þar sem gervigreindin sér um endurtekin verkefni en rannsakandi metur, túlkar og dregur ályktanir.
Gervigreind getur stórbætt heimildagreiningu með hraðari leit, flokkun og samantekt. Hún er þó best nýtt sem viðbót við mannlega greiningu til að tryggja gæði, dýpt og gagnrýna hugsun.
Mikilvægt er að skipuleggja ferlið allt frá byrjun.
Með þetta að leiðarljósi verður ferlið skilvirkara og skipulagðara, hvort sem unnið er með hefðbundið yfirlit (narrative review), kerfisbundna rýni (systematic review) eða skimun (scoping review).
Heimildayfirlit þarf að vera ekki bara upptalning, heldur fræðilegt innlegg sem byggir undir rannsóknarspurningu og aðferðafræði. Það þarf að vera markvisst, gagnrýnið og skipulagt, sýna fram á gloppur og réttlæta frekari rannsóknir.